grillað sesarsalat með harissa kjúklingabaunakurli


Mynd/ Gunnar Bjarki fyrir Gestgjafann


Grillað romain er bæði veglegt og alltaf jafn gott. Þessi útgáfa af sesarsalati inniheldur sterkt Harissa kjúklingabaunakurl, klassísku heimagerðu fræ tahini sesarsósuna og brauðteninga. Endilega notið súrdeigsbrauð sem er á síðustu metrunum, því bitarnir verða svo stökkir í ofninum.

UPPSKRIFT

6 lítil Romain hjörtu, skorin langsöm í tvennt

Kjúklingabaunakurl
2 dósir lífrænar kjúklingabaunir, gróft saxaðar
1 msk lífræn soja eða tamari sósa
1 msk Harissa kryddblanda frá Kryddhúsinu
Cayenne eftir smekk
S&P

Tahini sesarsósa
1/4 bolli lífrænt tahini
4 msk lífrænt næringarger
4 msk vatn
2 msk sinnep
1-2 msk lífræn hágæða ólífuolía
2 sítrónur, kreistar
S&P

Heimagerðir brauðteningar
4-5 súrdeigsbrauðsneiðar, skornar í bita
2 msk lífræn hágæða ólífuolía
1 tsk hvítlaukskrydd


AÐFERÐ

1. Byrjið á því að hita ofninn á 180*c, blástur. Skolið og sigtið kjúklingabaunirnar og komið þeim fyrir í eldföstu móti. Kryddið og bakið í 20-30 mínútur eða þar til stökkar.

2. Komið brauðteningum einnig fyrir í ofnskúffu eða eldföstu móti. Kryddið og bakið í u.þ.b. 20 mínútur eða þar til gylltir og stökkir.

3. Hrærið því næst öllum hráefnunum saman í sósuna og setjið til hliðar.

4. Kálið er langbest borið fram beint af grillinu svo ég mæli með að bíða með það þar til allt annað er tilbúið. Grillið kálið í nokkrar mínútur eða þar til fallegar renndur myndast. Raðið salatinu eða blandið saman á fallegan bakka og berið fram.